Flugvöllurinn í Vatnsmýri er hjartað sem slær allan sólahringinn árið um kring. Þangað koma og fara slasaðir á bráðamóttöku, sjúkir á sjúkrahús, starfsmenn á fundi, vörur til fyrirtækja, embættismenn í stjórnsýslu, ferðamenn í ferðaþjónustu, nemendur til náms, auk þess sem völlurinn er hjartað í flugsögu Íslendinga aftur til ársins 1919.
Um 6-700 sjúkraflug koma árlega til Reykjavíkur með sjúklinga. Margir fara beint inn á skurðarborðið og eiga fluginu lífið að launa.
Vegna breytilegra vinda og landslags er flugvöllur í Vatnsmýri raunhæfasti og öruggasti kosturinn í flugvallarmálum höfuðborgarinnar . Um það eru allir sérfræðingar sammála.
Reykjavíkurvöllur tryggir öryggi landsins í heild. Þaðan má flytja lækna, lögreglu, sérsveit, björgunaraðila, búnað, fólk o.fl. fyrirvaralaust hvert á land sem er.
Næstum tvö sjúkraflug eru flogin á Reykjavíkurvöll allt árið um kring, hátíðisdaga sem aðra daga.
Ákvörðun um að senda sjúkling með sjúkraflugi er tekin af læknum sem telja aðrar leiðir ekki færar.
Á hverju ári er fjöldi tilvika þar sem læknar eru sammála um að skjótur flutningur með sjúkraflugi hafi skilið á milli lífs og dauða.
Vegna áætlunarflugs í Vatnsmýri geta Íslendingar stundað nám þvert á landshluta, byggt upp atvinnulíf og sótt verslun og þjónustu til borgar og lands.
Þeir sjúklingar sem ekki þurfa skyndilegan flutning fara til Reykjavíkur á sjúkrahús eða til læknis með áætlunarflugi.
Fyrirtæki á Austfjörðum getur ákveðið kl 08 að senda mann á fund í Reykjavík í hádeginu og til baka fyrir kvöldmat. Án flugsins er samtenging atvinnulífs við borgina rofin.
Mælingar sýna að yfir helstu vetrarmánuði fljúga fleiri til Akureyrar en ferðast þangað um þjóðveg eitt.
Samkvæmt mælingum eru 60% farþega í innanlandsflugi íbúar af landsbyggðinni.
Öflug fyrirtæki starfa á landsbyggðinni sem senda daglega fólk til borgarinnar vegna viðskipta. Án flugs brestur forsenda fyrir slíkum rekstri.
Í neyðartilvikum þarf að bregðast skjótt við og senda neyðarbúnað og sérfræðinga hvert á lands sem er. Stutt frá Vatnsmýri eru höfuðstöðvar slökkviliðs, sjúkrahús ofl. Viðbragðstími er því með allra besta móti.
Þyrlur með slasaða sjúklinga mega engan tíma missa. Staðsetning vallarins rétt við sjúkrahús skiptir sköpum í öryggi sjófarenda.
Í slæmum veðurskilyrðum geta þyrlur ekki lent við sjúkrahúsin og treysta á aðflugsbúnað Reykjavíkurvallar. Völlurinn er því lykilatriði í óskertri þjónustu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.
Þrír flugskólar starfa í Vatnsmýri og hafa kennt þar flug í áratugi. Þar hafa nær allir íslenskir flugmenn tekið sín fyrstu skref í flugi.
Nám í atvinnuflugi kallast á við háskólanám beggja vegna vallarins. Vatnsmýrin er vagga flugmennta á Íslandi.
Flugnemar sem læra næturflug og blindflug treysta á Reykjavíkurvöll í æfingum sínum vegna reglna um upplýsta flugvelli og gætu ekki lokið flugprófi ef hann yrði lagður niður.
Við flugvöllinn starfar mikill fjöldi fólks við flug, viðhald, flugstjórn, afgreiðslu, kennslu og svo mætti lengi telja.
Störf í flugi eru góð og vel launuð störf sem krefjast menntunar og reynslu. Mikil sókn er í flugtengd störf og komast þar færri að en vilja.
Vatnsmýrin er mikilvægt atvinnusvæði á annað þúsund einstaklinga sem byggt hafa upp myndarlegan flugiðnað á Íslandi.
Blóðsendingar til og frá Blóðbankanum í Reykjavík sem ekki þola bið eru sendar með flugi.
Flugfrakt tekur oftar en ekki á viðkvæmum varningi sem ekki þolir flutning með flutningabílum og þarf að komast strax á áfangastað.
Árlega fara rúmlega 700 tonn af vörum um Reykjavíkurvöll. Í flestum tilvikum eru það vörur sem senda þurfti með hraði. Það eru 2 tonn á hverjum einasta degi allt árið um kring.
Daglega er flogið með mikið magn matvæla vítt og breytt um landið og alla leið til Grænlands. Auðvelt er að tryggja ferskleika með tryggum flugsamgöngum.
Fyrirtæki hvar sem er á landinu geta afgreitt viðskiptavini sína samdægurs með aðstoð flugsins. Aldrei þarf að bíða lengi eftir varahlutum sem koma fljúgandi þvert yfir landið þegar þörf krefur.
Þær vörur sem sendar eru með flugi þurfa að komast strax á áfangastað. Byggð og atvinnulíf sendir tvö þúsund kíló daglega sem ekki get beðið.
Hjartaaðgerðir, tauga- og heilaaðgerðir, hjartaþræðingar, vökudeild eru eingöngu á sjúkrahúsum í Reykjavík. Landsbyggðin treystir á samgöngur á þessa staði.
Fjöldi sérhæfðra tækja eru á sjúkrahúsum í Reykjavík og hvergi annarstaðar. Allir landsmenn hafa kostað þau tæki og þurfa því greiðan aðgang að þeim.
Íbúar sem ganga til mennta sækja mikið til höfuðborgarinnar og er samstarf við skóla á landsbyggðinni mikið. Flugið er þar lykilþáttur.
Nær öll stjórnsýsla landsins er staðsett í Reykjavík. Samskipti landsbyggðar við borg eru því mikil og skipta stöðugar og skjótar samgöngur höfuðmáli.
Helstu embætti hins opinbera eru í Reykjavík og þangað þurfa einstaklignar og fyrirtæki af öllu landinu oft að sækja.
Í Reykjavík eru helstu byggingar og stofnanir menningarmála og er þar mikill samgangur við landsbyggðina sem byggir á traustum flugsamgöngum.
Ferðamenn sem ætla út á land fara margir með flugi og geta með skömmum fyrirvara ákveðið að fara út á land á vit ævintýranna.
Margar af afskekktari byggðum hafa byggt upp myndarlega ferðaþjónustu sem treystir á flugsamgöngur frá borginni.
Allar borgir heims leggja áherslu á traustar og stöðugar flugsamgöngur. Ferðamenn eru vanir þessu og treysta því á samgöngur á Íslandi.
Víða um heim nota ferðamenn lestarkerfi til ferða innanlands. Ekkert slíkt er á Íslandi og kemur flugið þess í stað.
Tekjur af ferðamennsku vaxa ár frá ári á landinu öllu. Leggist innanlandsflug af glatast hluti þeirra tekna.
Áætlað er að um 10% farþega á ári séu ferðamenn og yfir sumartíman gerist það oft að vélar séu alfarið skipaðar ferðamönnum.
Þann 3. september árið 1919 var fyrsta flug á Íslandi farið frá Vatnsmýrinni. Flug hefur verið stundað í Vatnsmýri allar götur síðan.
Bæjarráð Reykjavíkur ákvað 8. mars 1940 að fallast á tillögu skipulagsnefndar að ætla flugvelli stað í Vatnsmýri, og eftir að nefndin hafði látið kanna sjö hugsanleg stæði fyrir flugvöll.
Nær öll flugsaga Íslands tengist með einum eða öðrum hætti flugvellinum í Vatnsmýri. Þar eru margar af merkustu minjum flugsögunnar.
Flugtengd störf á Íslandi eru 9.200 eða 5,5% vinnuafls samkvæmt skýrslu Oxford Economics.
Flugrekstur stendur undir 6,6% af landsframleiðslu Íslands samkvæmt sömu skýrslu.
Árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í flugþjónustu á Íslandi er 16 milljónir króna.
Rannsóknir sýna að tenging með flugsamgöngum eru grunnur að mögulegum fjárfestingum og nýjum hugmyndum í atvinnulífi.
Í skýrslu Oxford Econimcs segir að flugfélög með bækistöðvar á Íslandi annist 78% af öllu farþega- og fraktflugi hérlendis.
Framlag flugrekstrar til landsframleiðslu er hærra en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.
Flug er hagkvæmari ferðamáti en bílaumferð. Minna eldsneyti fer í hvern farþegakílómeter í farþegaflugi en í bíl.
Fullsetin Fokker 50 flugvél jafnast á við rúmlega 30 bíla sé miðað við 1.6 farþega í bíl.
Árlega er fjöldi banaslysa í umferðinni á þjóðvegum landsins. Engin banaslys hafa orðið síðustu áratugi í áætlunarflugi.
Vatnsmýrin er fagurt grænt svæði sem vel er við haldið. Í borg skiptir marga máli að hafa opin svæði en ekki hús við hús.
Flugvél slítur ekki þjóðvegum og lítið slit er á flugbrautum miðað við almenna vegi. Aukin flugumferð dregur því úr vegsliti.
Flugvöllurinn í Vatnsmýri er eini þriggja brauta flugvöllurinn á Íslandi fyrir utan Keflavíkurvöll.
Sé ófært á Keflavík þá er næsti fjölbrauta flugvöllur í Skotlandi.
Hver vél sem færi yfir hafið yrði að bera auka eldsneyti til að fara í versta falli til Skotlands verði Reykjavíkurvelli lokað.
Ef Keflavík væri eini fjölbrautavöllurinn á suðvesturlandi þá gætu sjúkraflugvélar ekki flogið suður ef völlurinn lokaði vegna veðurs.
Á veturna skipast veður skjótt í lofti. Lokist Keflavík þegar sjúkraflugvél væri á leiðinni yrði hún að snúa við.
Ef hver vél þarf að bera meira eldsneyti þá eykst kostnaður við hverja flugferð. Þann kostnað bera farþegar í millilandaflugi.