Grein, birt í Morgunblaðinu 1. nóv. 2013.
Samkvæmt samkomulagi, sem fulltrúar ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group undirrituðu í Hörpu 25. okt. s.l., á nú "að fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri". Segja má, að þar með sé lagt upp í fjórða opinbera leiðangurinn í leit að flugvallarstæði fyrir höfuðborgina.
Fyrsta leitin fór fram á vegum skipulagsnefndar Reykjavíkur á árunum 1938-1940, og var ákveðin í kjölfar bréfs atvinnu- og samgöngumálaráðuneytis til bæjarstjórnar Reykjavíkur, dags. 11. okt. 1937, en með því fylgdi uppdráttur af flugvelli í Vatnsmýri, sem Gústaf E. Pálsson verkfræðingur hafði gert 12. sept. 1937. Á vegum nefndarinnar var gerð "nákvæm rannsókn" á eftirfarandi sjö stöðum, hér raðað í stafrófsröð: Bessastaðanes, Flatir (austan Rauðhóls upp af Hólmi), Kapelluhraun (sunnan Hafnarfjarðar), Kringlumýri, Melar (ofan við Ártún), Sandskeið og Vatnsmýri.
Í bréfi nefndarinnar til bæjarstjórnar, dags. 5. mars 1940, er mælt með flugvelli í Vatnsmýri, og samþykkti bæjarráð þá tillögu fyrir sitt leyti á fundi sínum 8. mars 1940, og staðfesti þá ákvörðun daginn eftir með bréfi til nefndarinnar. Í kjölfar hernáms Íslands 10. maí 1940 fór breska setuliðið fljótlega að huga að gerð flugvallar í Reykjavík, og hófust þær framkvæmdir í október á því svæði í Vatnsmýrinni, sem bæjarstjórn hafði áður ákveðið. Var flugvöllurinn síðan formlega opnaður fyrir flugumferð 4. júní 1941.
Önnur leitin fólst í störfum "Flugvallarnefndar 1965-1967", sem Ingólfur Jónsson samgönguráðherra hafði skipað "til að gera tillögur að framtíðarskipan flugvallarmála Reykjavíkur". Þá höfðu Loftleiðir þegar tekið í notkun stórar CL-44 skrúfuþotur, sem ekki gátu notað Reykjavíkurflugvöll, og flugu því um Keflavíkurflugvöll. Flugfélag Íslands stefndi þá að kaupum á nýrri farþegaþotu, sem raunhæft þurfti einnig þá lengd flugbrauta, sem aðeins Keflavíkurflugvöllur bauð upp á.
Nefndin beindi augum sínum fyrst og fremst að Álftanesi, en klofnaði í niðurstöðum sínum. Þriggja-manna meirihluti mælti með "X-kosti" á Bessastaðanesi, sem var tveggja- til þriggja-flugbrauta flugvöllur fyrir innanlandsflug, og þar sem lengsta flugbrautin var 1.800 m. Tveggja-manna minnihluti vildi frekar "L-kost", sem var mun stærri flugvöllur með tveimur flugbrautum, allt að 2.700 m að lengd, og ætlaður bæði fyrir innanlands- og millilandaflug.
Með bréfi Hannibals Valdimarssonar félagsmálaráðherra til skipulagsstjórnar ríkisins, dags. 1. júní 1973, fengu þessar hugmyndir hins vegar afgerandi endi. Í bréfinu er rakinn fram kominn ágreiningur um skipulagsmál, m.a. mótmæli hreppsnefndar Bessastaðahrepps "að flugvöllur verði staðsettur á Álftanesi". Bréfinu lýkur síðan með eftirfarandi ályktunarorðum: "Í aðalskipulagi Bessastaðahrepps skal ekki gera ráð fyrir að flugvöllur kunni að verða staðsettur í landi Bessastaða, Breiðabólsstaða og Akrakots." Þar með var formlega aflétt fyrri hömlum á byggð á Álftanesi, sem settar höfðu verið vegna hugsanlegs flugvallar á svæðinu. Með bréfi Zóphoníasar Pálssonar skipulagsstjóra ríkisins til samgönguráðuneytis, dags. 25. júní 1973, er framangreind ákvörðun félagsmálaráðherra formlega kynnt. Í reynd var það bréf með öllu óþarft, því Hannibal var á þessum tíma bæði félagsmála- og samgönguráðherra!
Þriðji leitarleiðangurinn var svo á vegum samráðsnefndar samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar, sem í apríl 2007 skilaði skýrslu sinni, "Reykjavíkurflugvöllur - úttekt á framtíðarstaðsetningu" . Sjö-manna vinnuhópur á vegum nefndarinnar ákvað að skoða nánar eftirfarandi 13 staði, aðra en Vatnsmýri og Keflavíkurflugvöll, og hér raðað í stafrófsröð: Afstapahraun, Bessastaðanes, Engey, Geldinganes, Hafnarfjörður, Hólmsheiði, Hvassahraun, Löngusker, Melanes, Mosfellsheiði, Sandskeið, Selfoss og Tungubakkar.
Eftir nánari umfjöllun ákvað samráðsnefndin að þrengja valið í sjö kosti, þ.e. fjóra mismunandi kosti flugvallar í eða við Vatnsmýri, Hólmsheiði, Keflavík og Löngusker. Í niðurstöðum nefndarinnar sagði: "Núverandi flugvöllur er á mjög góðum stað frá sjónarmiði flugsamgangna og flugrekenda. Rannsaka ber til hlítar möguleika á flugvallarstæðum á Hólmsheiði og Lönguskerjum með tilliti til veðurfars og flugskilyrða."
Nú, þegar fjórði leitarleiðangurinn hefst, en honum á að ljúka fyrir árslok 2014, þurfa leitarmenn einnig að hafa til hliðsjónar eftirfarandi ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem formennirnir kynntu 22. maí s.l.: "Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki, sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu, þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu."
Umrædd stjórnsýsla og önnur þjónusta, m.a. miðlæg heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn, mun nú vera svo til öll staðsett í 101 Reykjavík, - og þrengir það leitarsvæðið töluvert.
Leifur Magnússon
verkfræðingur