Vansagt um Vatnsmýrarskipulag

Grein, birt í Morgunblaðinu 15. ágúst 2012

Það er oft fróðlegt að fylgjast með hvernig stjórnmálamenn flytja mál sín, - ekki hvað þeir segja, heldur mun fremur hverju þeir kjósa að sleppa í frásögn sinni. Gísli Marteinn Baldursson, einn af núverandi fimm borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, ritaði nýlega grein í Fréttablaðið um sérstakt áhugamál sitt, "Framtíðarbyggð í Vatnsmýri". Sú grein varð síðan tilefni til ritstjórnargreinar í blaðinu undir fyrirsögninni "Aðalskipulagi ber að hlíta".

Skipulagsvald sveitarstjórna

Það er rétt, að samkvæmt lögum um skipulagsmál ber sveitarstjórnum m.a. að hlutast til um gerð aðalskipulags. Hins vegar mætti líka geta þess að slíkt skipulag öðlast fyrst gildi, eftir að umhverfisráðherra hefur opinberlega staðfest það. Í því sambandi hefði einnig mátt rifja upp, að tillaga Reykjavíkurborgar að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 var staðfest af þáverandi umhverfisráðherra 20. des. 2002 með nokkrum árituðum fyrirvörum. Meðal þeirra var eftirfarandi: "Uppbygging í Vatnsmýri og tímasetning hennar er háð flutningi á flugstarfsemi af svæðinu, sbr. kafla 3.2.1. í greinargerð I, Stefnumótun".

Samtímis þessarri áritun sinni skipaði umhverfisráðherra þriggja manna nefnd "til að fara yfir svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, og gera tillögur um landnotkun í Vatnsmýri á svæði IV, sem tekur til tímabilsins 2016-2024". Helga Jónsdóttir þáverandi borgarritari var tilnefnd í nefndina af Reykjavíkurborg, undirritaður var tilnefndur af samgönguráðherra, og Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri í umhverfisráðuneyti var formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu sinni 1. desember 2003, og voru þar tíundaðar meginröksemdir bæði Reykjavíkurborgar og samgönguráðuneytis.

Niðurstaða nefndarinnar var hins vegar formlega skráð eftirfarandi: "Samkvæmt framansögðu fara þau sjónarmið að halda tveggja flugbrauta flugvelli í Vatnsmýrinni og áform Reykjavíkurborgar um aðra landnýtingu í Vatnsmýrinni ekki saman. Að þessum forsendum fengnum er ljóst að sameiginleg niðurstaða um tillögu til breytinga á skipulagi næst ekki í nefndinni. Nefndin telur eigi að síður mikilvægt að borgaryfirvöld í Reykjavík og samgönguyfirvöld taki upp formlegar viðræður um framhald málsins."

Of langt mál yrði að rekja hér síðari og brokkgengan feril málsins, sem m.a. fól í sér að þáverandi samgönguráðherra skipaði í apríl 2005 nefnd fulltrúa ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar til að kanna hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu væri unnt að byggja flugvöll. Á vegum nefndarinnar var litið til 13 hugsanlegra svæða, en 11 þó fljótlega útilokuð. Eftir stóðu aðeins tveir kostir, Hólmsheiði og Löngusker, - en þó með eftirfarandi skráðum fyrirvara: "Sá fyrirvari er bæði um Hólmsheiði og Löngusker að litlar sem engar veðurfarsathuganir liggja fyrir um þá staði, og því verður ekki fullyrt á þessu stigi að þeir henti undir flugvöll. Þetta á sérstaklega við um Hólmsheiði þar sem flugvöllur mundi vera í 135 m hæð yfir sjó og mun nær fjöllum en núverandi flugvöllur."

Ný skipulagslög

Í sept. 2010 samþykkti Alþingi ný skipulagslög. Meðal nýmæla þar er að umhverfisráðherra skuli leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 12 ára. Í þeirri stefnu skal samþætta áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál o.fl., - sem þýðir að slík landsstefna skuli m.a. hafa hliðsjón af ákvæðum samgönguáætlunar Alþingis. Þess er að geta, að í öllum þeim samgönguáætlunum, sem Alþingi hefur samþykkt, hefur ítrekað verið minnst á þýðingu núverandi Reykjavíkurflugvallar sem miðpúnkts áætlunarflugs innanlands, og aðaláfangastað sjúkraflugs hérlendis.

Við gerð svæðis- eða aðalskipulags ber sveitarfélögum því framvegis að byggja tillögur sínar á landsskipulagsstefnu ríkisins. Samkvæmt 57. gr. laganna skal umhverfisráðherra eigi síðar en árið 2012 leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn tillögu sína að landsskipulagsstefnu.

Landsfundir Sjálfstæðisflokks

Ég býst við flestir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks telji að æðsta ákvörðunrvald um stefnu sé enn að finna á landsfundum hans, og að kjörnum frambjóðendum hans til Alþingis eða sveitarstjórna beri að hafa hliðsjón af henni. Þessir fundir hafa undanfarna marga áratugi ítrekað ályktað um þýðingu þess að núverandi Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað. Síðasti landsfundur samþykkti eftirfarandi: "Reykjavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs. Landsfundur leggur áherslu á að innanlandsflug verði með svipuðu sniði og verið hefur, og áfram verði stutt við flugleiðir til jaðarbyggða, þó þannig að hagkvæmni sé gætt í hvívetna. Landsfundur leggur áherslu á að hafist verði handa um uppbyggingu samgöngumiðstöðvar í Reykjavík hið fyrsta og henni lokið á sem skemmstum tíma".

Lokaorð

Í starfi borgarfulltrúa felast eflaust margar ánægjustundir. Sagt er að ofarlega þar á blaði sé úthlutun nýrra byggingalóða. Kunnugt er, að Reykjavík telur sig þar vera í harðri samkeppni við nágrannasveitarfélögin um búsetu nýrra íbúa, þ.e. nýrra skattgreiðenda. Þótt enginn skortur sé á nýjum lóðum af ýmsu tagi, þegar litið er á höfuðborgarsvæðið sem eina heild, telja sumir borgarfulltrúar Reykjavíkur að megintromp þeirra hljóti að vera að geta boðið upp á nýja íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu. En af hverju stoppa þar? Væri ekki tilvalið að fylla upp í Reykjavíkurhöfn og bjóða einnig þar upp á nokkrar nýjar íbúðablokkir, - fyrst greiðar, hagkvæmar og nútímalegar samgöngur við höfuðborgina skipta engu máli?

Það verður eflaust áhugavert rannsóknarefni fyrir fræðimenn framtíðar að rannsaka hvernig sumir borgarfulltrúar gátu verið svo veruleikafyrtir að leggja til lokun Reykjavíkurflugvallar, sem hefur verið miðstöð almenningssamgangna hérlendis undanfarna sjö áratugi. Ljóst er að án hans getur Reykjavík hvorki þjónað sem framtíðarmiðstöð sjúkraþjónustu Íslands, - né heldur sem höfuðborg þess.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri