Miðjumoð og meinlokur

Grein, birt í Morgunblaðinu 18. desember 2012.

Þeir skriffélagar Gunnar H. Gunnarsson og Örn Sigurðsson, langtíma talsmenn svonefndra Samtaka um betri byggð, senda mér kveðju í grein sinni í Morgunblaðinu 12. desember. Svo mörgum rangfærslum er þar safnað á einn stað að erfitt er að leiðrétta þær allar innan þeirra stærðarmarka, sem gilda fyrir aðsendar greinar til blaðsins.

"Flugvellirnir í upptalningu Leifs eru að meðaltali í 5,8 km fjarlægð frá miðborgunum".

Hártoganir af þessu tagi eru í besta lagi hjákátlegar, þegar haft er í huga að umræddar sex stórborgir, Boston, London, New York, Stokkhólmur, Rio de Janeiro og Washington D.C. þekja mjög stór landsvæði, og eru varla með "miðborg" sína skilgreinda í einum litlum púnkti. Í nánari skilgreiningu þeirra félaga er Reykjavíkurflugvöllur síðan sagður "í miðborginni sjálfri í 0,0 m fjarlægð, - í Ground Zero"!

Um raunverulega miðju höfuðborgarinnar má eflaust deila. Á vefsíðu Reykjavíkur var skráð að stundum hafi verið bent á mót Aðalstrætis, Hafnarstrætis og Vesturgötu sem upprunalegu miðju Reykjavíkur, en þar sé gamall viðmiðunarpúnktur allra götunúmera borgarinnar. Á vefsíðunni var þó einnig birt mun raunhæfari viðmiðun um "miðju búsetu" og sýnd tilheyrandi kort, sem miðuðu síðast við apríl 2010. Þá var var þungamiðja búsetu í Reykjavík á austanverðri skólalóð MS og Vogaskóla við Ferjuvog, en þungamiðja búsetu á öllu höfuðborgarsvæðinu rétt fyrir austan Hörgsland, skammt frá Fossvogsskóla.

"Ákveðið hefur verið að leggja niður Bromma-flugvöll".

Í janúar s.l. stóð Háskólinn í Reykjavík fyrir málþingi um flugmál, og fjallaði þar m.a. Henrik Littorin frá Swedavia um flugvelli Stokkhólmsborgar. Þar kom fram, að frá því að Arlanda byrjaði að þjóna millilandafluginu árið 1962 hafi margsinnis komið til álita að loka Bromma-flugvelli, en ávallt verið fallið frá því. Árið 2008 hafi síðan verið gert "langtíma samkomulag" milli sænsku flugmálastjórnarinnar (þá LFV, nú Swedavia), og borgarstjórnar Stokkhólms um áframhaldandi rekstur Bromma, og gildir það til ársins 2038.

"Aðeins er leyft sjónflug um London City Airport".

Hvernig dettur mönnum í hug, að flugvöllur, sem þjónar þremur milljónum farþega á ári, 20% fleiri en fara samtals um Keflavík og Reykjavík, sé aðeins með sjónflug? Hið rétta er að á LCA-flugvellinum eru tvö blindlendingarkerfi (ILS) á sitt hvorum enda flugbrautarinnar, fjarlægðarmælir (DME), radioviti (NDB) og aðflugsljós, þannig að þarna er fyrst og fremst um að ræða blindflug (IFR).

"Í tveimur óháðum rannsóknum erlendra flugvallarsérfræðinga um 1964 (Hellmann, Svíþjóð / Buckley, USA) er Vatnsmýri talinn lakasti kosturinn af 4 á höfuðborgarsvæðinu".

Hér hefði nú vel mátt geta þess, að skilgreint verkefni bæði Buckley og Hellmann var að kanna möguleika á stórum flugvelli í eða við höfuðborgina, sem gæti sinnt öllu íslensku millilanda- og innanlandsflugi. Í forsendum Buckley var miðað við tvær flugbrautir, 2.134 m langa aðalflugbraut (síðar lengd í 3.048 m), og 1.951 m þverbraut (síðar lengd í 2.749 m). Slíkur flugvöllur kemst að sjálfsögðu hvergi fyrir í Vatnsmýrinni, og skýrir það þáverandi röðun valkostanna.

Svo vill til, að mér sem þáverandi framkvæmdastjóra flugöryggisþjónustu Flugmálastjórnar Íslands var falið að vinna náið með hinum merka verkfræðingi Bertil Hellmann (sem er frá Finnlandi en ekki Svíþjóð), og þekki því vel til hans hugmynda og gagna frá þessum tíma. Bæði Buckley og Hellmann komust að þeirri meginniðurstöðu, að eina raunhæfa stæðið fyrir stóran flugvöll við höfuðborgina væri á Álftanesi. Hins vegar sló þáverandi félagsmálaráðherra (sem reyndar var einnig samgönguráðherra) þann möguleika fljótt út af borðinu, þegar hann aflétti öllum fyrri hömlum á byggð á Álftanesi, - en það er önnur og mun lengri saga!

"Staðfesti dr. Haraldur Ólafsson veðurfræðingur að athugun á skyggni og skýjahæð gæfi til kynna að nýting flugvallar á Hólmsheiði verði yfir 96%. Flugrekendur telja að 95% nægi"

Hér er þeir félagar enn einu sinni að rugla saman kröfum. Mér er ekki kunnugt um aðra 95%-kröfu en þá sem tilgreind er í alþjóðareglum svonefnds ICAO Annex 14 (Aerodromes), sem fjallar um hönnun, byggingu og rekstur flugvalla, og varðar eingöngu nauðsynlegan fjölda flugbrauta til þess að 95% lágmarksnýtingu verði náð miðað við tiltekin gildi þess hliðarvinds, sem flugvélar þola. Þessi krafa hefur ekkert að gera með hugsanlega nýtingu flugvallar miðað við tiltekin gildi skyggnis og skýjahæðar, sem m.a. eru veruleg háð þeim tækjabúnaði, sem þar er tiltækur fyrir blindaðflugið. Að sjálfsögðu þarf sú nýtingartala að vera miklu hærri, eða yfir 99%. Hafa ber í huga að möguleikar á lendingu í aðeins 95% tilvika þýðir að umræddur flugvöllur væri "lokaður" í 18 daga á ári, - og hætt er við að núverandi leiðakerfi Icelandair myndi fljótlega hrynja ef slíkt ætti að gilda fyrir Keflavíkurflugvöll.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri